Mættur á ný.

Hæ á ný.

Ég ákvað taka langa pásu frá blogginu í sumar. Ég hreinlega hafði hvorki þörf né áhuga á að moka úr heilahvelum mínum inn á veraldarvefinn.

Núna er ég byrjaður að vinna og nýt þess bara mjög vel að koma mér á lappir á morgnana og gera eitthvað smá gagn. Vinnan er tímabundin og er í gegnum afleysingastofu hér í Danmörku, Adecco. Þetta er ansi mikið notað hér í Danmörku og ég held hreinlega að það séu ein 3 fyrirtæki hérna sem sinna þessu. Ég veit ekki hversu mikið er um þetta heima. Ég er sem sagt sendur út af örkinni til fyrirtækja sem vantar starfsmann tímabundið. Núna er ég hjá fyrirtæki sem kallast Harald Nyborg og sérhæfir það sig í að selja alls konar vörur í gegnu pöntunarbækling, sem er dreift inn á dönsk heimili nokkrum sinnum á ári. Það er næstum hægt að kaupa allt þarna utan matvörur. Reyndar hægt að kaupa eitthvað af fóðri fyrir gæludýr. Ég er í þeirri deild sem pakkar stórum vörum. Svona 30 kíló eða meira. Þetta er fín vinna og mórallinn þarna er virkilega fínn. Margir skemmtilegir vinnufélagar með alls kyns bakgrunn. Einn er ansi skemmtilegur þarna. Hann kemur frá Kína og er algjörlega fyrirmunað að geta sagt nafnið mitt rétt. Það í sjálfu sér fer ekkert sérstaklega í taugarnar á mér, en málið er að í staðinn fyrir að segja "Arnar" þá segir hann "asnar" og það finnst mér bara ekki hljóma neitt sérlega spennandi. Ég vona bara að hann meini frekar spænsku útgáfuna af þessu orði fremur en þá íslensku. Amk þá væri mér líkt við fyrrum forsætisráðherra bacalo ætanna í suðri.
Ég verð að minnast á einn vinnufélaga þarna, sem að hluta til...verulega littlum hluta...ég kenni í brjósti um en að stórum hluta þoli bara alls EKKI!!! Hann vinnur þarna í annarri deild og virðist hafa einhverja þörf fyrir að sitja á sama borði og ég í matarhléinu. Ég er líklega búinn að lesa sama blaðið oftar og meira en öll Danmörk samanlagt, en hann dæsir og geispar og segir mér í algjörlega óspurðum fréttum hvað hann sé þreyttur. Mér varð á að veita smá viðbrögð og þá leysti ég úr álögum raddbönd viðkomandi og ekki varð lát á fyrr en hléinu var lokið og ég töluvert þreyttari heldur en þegar í hlé var komið. Nú held ég raunar að viðkomandi sé nú að fatta að ég hef jafnmikin áhuga á samveru hans og blautri borðtusku (ég skora á þá sem fatta þetta að veita sér hljóðs).

Síðustu tvo mánuði hef ég svona verið í atvinnuleit og rétta mig við eftir frekar dapra uppskeru vorannar. Ég hef það mjög fínt í dag og líður vel. Það hljálpar mikið að vera kominn í vinnu og "gera gagn" eins og Þór vinur minn sagði réttilega. Vinnutíminn er virkilega fínn þegar maður loksins hefur vanist því að vakna, en hann er sem sagt frá 7 á morgnana til 15 á daginn og til 13 á föstudögum. Mjög "næs".
Ég hjóla í vinnuna og það tekur yfirleitt ekki nema um 25 mínútur því að ég auðvitað eins og gamli hundurinn kann ekki að sitja. Ég legg af stað akkúrat þannig að ef ég hjóla eins og uppdópaður atvinnuhjólreiðamaður þá mæti ég á mínútunni.

Talandi um hjólreiðar. Tour de France vekur ægilega athygli hérna og ég hafði nú ekki gert mér grein fyrir hversu mikið er hægt að ræða um hjólreiðar. Maður sá nú smá gleði í þessu, en ég reyndi nú að halda mér frá þessu sem mest þar sem ég hef nú "tendens" til að fylgjast fullvel með íþróttagreinum sem ég fæ áhuga á.

Alexander kom aftur heim frá klakanum í gær. Ég hafði ekki séð hann í rúman mánuð og ofsalega var nú gaman að sjá pilt. Við Sólrún ákváðum svo að fara með börnin á Jensens Böfhus, sem er svona fínni McDonalds þeirra dana. Ægilega fínt allt saman og gaman. Ég fór svo heim og sofnaði óvenju snemma.

Jamm, annars er brunnur minn að tæmast núna. Ég finn upp á einhverju fleiru næstu daga. Ég ætla að reyna að vera pínu duglegur að blogga núna.

kveðja,

Arnar Thor

Ummæli

Nafnlaus sagði…
VEI VEI VEI BLOGG!!!
Munda glöð!!!

Vinsælar færslur